Erlent

Forseti Mexíkó vill enda eiturlyfjaóöld

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Felipe Calderon.
Felipe Calderon. MYND/AP

Forseti Mexíkó hefur lagt öryggisáætlun fyrir þing landsins með það fyrir augum að binda endi á þá óöld sem ríkt hefur í landinu vegna átaka fíkniefnahringja.

Fíkniefnin eyðileggja framtíð barnanna okkar og eru rauður dregill fyrir glæpi og ómennsku, sagði mexíkóski forsetinn Felipe Calderon í sjónvarpsávarpi í gær og hvatti þingið eindregið til að samþykkja öryggisáætlunina. Aðgerðir forsetans koma í kjölfar drápshrinu í borginni Tiajuana þar sem 12 lík fundust á auðu bílastæði nálægt barnaskóla á mánudaginn. Þá fundust þrjú lík ofan í tunnum í gær og um helgina fundust tvö.

Allt tengist þetta átökum fíkniefnahringja sem berjast um yfirráð á fíkniefnamarkaðnum en veltan á honum er á heimsvísu komin langt fram úr alþjóðlegum stórfyrirtækjum á borð við Coca Cola og McDonald´s.

Greiningaraðilar segja stóru kókaínhringina í Kólumbíu vera farna að greiða vikapiltum sínum í Mexíkó í kókaíni í stað peninga, sennilega vegna óhagstæðs gengis, og þá þurfi að koma efnunum í peninga með þeim afleiðingum að götur Tiajuana og fleiri mexíkóskra borga logi í illdeilum. Það sem af er árinu hafa yfir 3.000 dauðsföll í Mexíkó tengst fíkniefnaátökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×