Skoðun

Tækifærin á Íslandi

Margir horfa í forundran á þá skyndilegu breytingu sem orðið hefur á undirstöðum íslensks atvinnulífs. En við megum ekki leggja árar í bát. Aldrei hefur verið jafn mikilvægt að sjá þau tækifæri sem landið býður upp á og standa saman í því að nýta þau. Við þurfum að spyrja okkur á hvaða sviðum við getum sótt fram. Hvernig getum við vegið upp á móti samdrættinum í bankastarfsemi og vöruinnflutningi? Ég er ekki í vafa um hvert svarið er. Það er ferðaþjónusta. Ég hef lengi verið sannfærður um að Íslendingar geti, á örfáum árum, tvöfaldað tekjur sínar af ferðamennsku.

En þetta krefst átaks á mörgum sviðum. Við þurfum áframhaldandi virka samkeppni í farþegaflutningum til og frá landinu og við þurfum að efla enn frekar okkar ferðaþjónustu. Lengi má gott bæta og engin markaðssetning jafnast á við það, að sinna þeim það vel sem hingað koma, að þeir fari ánægðir heim. Og mæli í kjölfarið með Íslandsferð við vini, fjölskyldu og samstarfsfélaga.

Ég tel að með samstilltu markaðsátaki yfirvalda og ferðaþjónustufyrirtækja á erlendri grund megi auka fjölda ferðamanna um 15-25% strax á næsta ári. Við höfum byggt mikið af nýju gistirými á undanförnum árum og með því að lengja háannatímann og fjölga ferðamönnum árið um kring fáum við betri nýtingu á þessa fjárfestingu.

Við erum svo lánsöm að búa í landi sem marga dreymir um að heimsækja. Aldrei hefur verið jafnbrýnt að nýta hvað landið er eftirsóttur áfangastaður og færa björg í bú fyrir nokkra erfiða vetur hér á Íslandi. Í dag skapar ferðaþjónustan 13% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. En hún getur hæglega skapað mun meira. Nú þarf að nýta alla möguleika. Við þurfum fleiri störf. Við þurfum að skapa tekjur til að fjármagna nýsköpun og menntun á næstu árum. Til að búa okkur sem best undir það að sækja fram á öllum sviðum. Sterkari en nokkru sinni fyrr. Ég veit að mitt duglega starfsfólk er klárt í slaginn.

Höfundur er forstjóri Iceland Express.




Skoðun

Sjá meira


×