Viðskipti innlent

Rannveig Rist maður ársins hjá Frjálsri verslun

Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, er maður ársins 2008 í íslensku atvinnulífi, að mati dómnefndar Frjálsrar verslunar.

Rannveig hlýtur þennan heiður fyrir mikla leiðtogahæfileika, hæfni við rekstur álversins í Straumsvík, farsælan feril, frumkvöðlastarf á sviði menntunar í stóriðju og forystu í málefnum kvenna í atvinnulífinu um langt skeið.

Rannveig hefur verið forstjóri álversins í Straumsvík í tólf ár og allan þann tíma hefur fyrirtækið verið rekið með hagnaði. Hún tók sig til síðastliðið vor, þegar henni hætti að lítast á blikuna í efnahagsmálum þjóðarinnar, og greiddi upp allar skuldir álversins. En álverið í Straumsvík er hlutafélag sem greiðir fyrir sínar framkvæmdir sjálft en færir ekki kostnaðinn yfir á móðurfélagið.

Alcan á Íslandi hf. hefur frá árinu 2007 verið í eigu Rio Tinto sem er stærsti álframleiðandi í heimi.

Rannveig er vélvirki, vélstjóri og vélaverkfræðingur. Hún er brautryðjandi og gerði innrás í karlaveldið þegar hún tók vélstjórapróf 4. stigs frá Vélskóla Íslands og síðar sveinspróf í vélvirkjun og varð þar með vélfræðingur. Þá var hún með fyrstu konum sem varð vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er fyrst kvenna til að gegna forstjórastarfi í stórfyrirtæki á Íslandi.

Þetta ár er sögulegt fyrir áliðnaðinn. Í fyrsta sinn eru áætlaðar útflutningstekjur af áli meiri en af fiski á þessu ári.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×