Viðskipti innlent

Eigum ekki að leita lausna í Austur-Þýskalandi

Jón Daníelsson prófessor við London School of economics.
Jón Daníelsson prófessor við London School of economics.

Jón Daníelsson prófessor við London school of economics segir að gjaldeyrishöftin sem sett hafa verið auki á óvissuna og með þeim séu stjórnvöld að senda þau skilaboð að þau hafi ekki stjórn á málunum. Gjaldeyrishöftin leysi skammtímavandamál en heppilegra hefði verið að taka á vandmálunum strax. Hann var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Með því að setja á gjaldeyrishöftin leysum við ekki vandamálið við þá peninga sem vilja fara úr landi, heldur ýtum við vandamálinu á undan okkur," sagði Jón sem sjálfur hefði viljað að krónan yrði látin fljóta án þess að stutt yrði við hana.

Hann segir mestu máli skipta að til lengri tíma myndi hún ná jafnvægi og í því samhengi myndi útflutningur skipta mestu máli. Til skamms tíma kæmi þetta illa við þá sem skuldi í erlendri mynt, en það yrði að aðstoða þá með öðrum hætti.

„Við yrðum bara að taka það áfall, það yrði stórt en við höfum fáa góða kosti í stöðunni. Það yrði ódýrara fyrir þjóðina til lengri tíma lítið. Við verðum líka að byggja upp traust íslendinga á stjórnvöldum en gjaldeyrishöftin gera það ekki. Með þeim er verið að segja að við höfum enga stjórn og leitum því til Austur-Þýskalands til að leysa vandamálin. Ég neita að trúa því að það sé komið svo illa fyrir okkur að við þurfum að ganga svona langt," sagði Jón.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×