Viðskipti erlent

Hilco bætir við kauptilboð sitt í Woolworths

Hilco hefur bætt við kauptilboð sitt upp á 1 pund í verslunarkeðjuna Woolworths. Nú er Hilco tilbúið að yfirtaka 35 milljónir punda í viðbót af skuldum Woolworths. Baugur er næststærsti hluthafi Woolworths með rúmlega 10% hlut.

Samingaviðræður milli Hilco, Woolworths og bankanna sem eiga skuldir verslunnarkeðjunnar munu halda áfram í dag. Hið nýja tilboð felur í sér að Hilco muni taka yfir allt að 300 milljónir punda af skuldum Woolworths.

Samkvæmt frétt um málið í The Times eru uppsagnir yfirvofandi hjá hluta af 30.000 starfsmönnum Woolworths fari svo að tilboði Hilco verði tekið. Ljóst sé að Hilco muni leggja niður eitthvað af 840 verslunum keðjunnar.

Vandamál Woolworths hafa aukist að undanförnu og eru birgjar í auknum mæli hættir að lána keðjunni. Glímir Woolworths því við minnkandi vöruúrval sem og lausafé. Steve Johnson forstjóri Woolworths segir að greiðslustöðvun blasi við.

Það flækir svo málið að stærsti hluthafinn, Ardeshir Naghshineh, vill ekki ganga að tilboði Hilco og hefur sett saman eigin áætlun þar sem ætlunin er að selja 200 af verslunum keðjunnar og fá þannig 150 milljónir punda af nýju fé inn í reksturinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×