Erlent

Segir Rússa ekki hafa bolmagn til að berjast við vesturveldin

Nýtt kalt stríð er ekki skollið á að mati sérfræðings hjá Öryggismálastofnuninni í Genf í Sviss. Hann segir Rússa ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að berjast við vesturveldin.

Sjálfstæðisflokkurinn boðaði til fundar um Rússagrýluna í Valhöll í gær. Spurt var hvert rússnesk hernaðaruppbygging stefndi. Margir flokksmenn sem muna vel kalt stríð milli Austurs og Vesturs voru mættir til að hlýða ræður Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, og Páls Dunay, sérfræðings hjá Öryggimsmálamiðstöðinni í Genf í Sviss, um þetta efni. Dunay þekkir vel til málsins og er þrautreyndur á öryggissviðinu. Hann er fyrrverandi forstöðumaður Alþjóðamálstofnunar í Ungverjalandi en þar áður starfaði hann hjá Friðarrannsóknarstofnuninni í Stokkhólmi, SIPRI.

Dunay segir ekki skollið á nýtt kalt stríð í samskiptum Rússa og Vesturveldanna en spenna sé vissulega meiri í samskiptum þar á milli. Dunay segir Rússa sækjast eftir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins hvað varðar þann sess sem þeir telji sig skipa í heiminum og megi segja að þeir eigi skilið að skipa.

Dunay segir ljóst að ekki sé um kerfisbundinn árekstur að ræða líkt og í Kalda stríðinu. Rússar bjóði ekki upp á annars konar lífshætti eða annars konar pólitísk viðhorf sem nokkurt ríki myndi sjálfviljugt fylgja eftir. Þar fyrir utan hafi Rússar ekki bolmagn til að verða stórveldi.

Þegar litið sé til hernaðaruppbyggingar þeirra hafi þeir ákveðið að verja milljörðum í rússneska herinn næsta áratuginn, fjárhæðum sem jafngildi útgjöldum til rannsóknar og þróunar hjá Bandaríkjaher í tvö ár.

Hvað Rússaflug nærri Íslandsströndum varði sé það mat sérfræðinga að ekki þurfi viðvarandi veru erlends herliðs á Íslandi en hugsanlega nánari samvinnu Íslands við herveldi. Ummæli Geirs H. Haarde forsætisráðherra frá því um síðustu helgi þess efnis að íslensk stjórnvöld grípi til ráðstafana ef ágangur Rússa við Íslands færist í aukana hafi vissulega komist til skila en ekki tekið á þeim á efstu stigum enda þurfi Rússar að horfa til stærri mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×