Viðskipti innlent

Segir krónuna líkjast korktappa á úthafi

Greining Glitnis segir að líklega hafi líking krónu við fljótandi korktappa á úthafi aldrei átt jafn vel við og nú en það eru fyrst og fremst straumar og sviptivindar að utan sem eru ástæður þessarar miklu veikingar krónunnar undanfarna daga.

Greining fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þeir þættir sem ráða för séu sviptingar á erlendum fjármálamörkuðum vikunnar auk þess sem aðgengi að erlendu láns- og lausafé er af skornum skammti, sem hefur valdið þrengingum á innlendum gjaldmiðlaskiptamarkaði.

Gengi krónu hefur lækkað hratt í vikunni og náði gengisvísitalan sínu hæsta gildi í gær frá því að skráning hennar hófst í 178,45. Vísitalan lokaði í tæplega 176 stigum í gær sem er jafnframt hæsta lokagildi vísitölunnar frá upphafi.

Síðan segir í Morgunkorninu: „Við útilokum ekki frekari veikingu krónu í bráð ef lánsfjárkrísan grefur sig dýpra og hökt verður í aðlögun hagkerfis að jafnvægi."

Við þetta má bæta að í dag stefnir í að gengisvísitalan fari yfir hæsta gildið frá í gær en það sem af er degi hefur hún hækkað um tæpt eitt prósent og stendur í tæpum 178 stigum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×