Erlent

Ráða kjósendur í Flórída úrslitum í þriðja sinn í röð?

MYND/AP

Allt bendir til að Flórída verði baráttukjördæmi þriðju bandarísku forsetakosningarnar í röð ef marka má nýjustu skoðanakönnun CNN.

Úrslitin réðust í Flórída árið 2000 í slagnum milli George Bush og Al Gore. Árið 2004 munaði þar örfáum prósentustigum á Bush og öldungadeildarþingmanninum John Kerry og samkvæmt síðustu könnun CNN eru Obama og McCain nánast hnífjafnir með 48 prósent hvor á bak við sig í Flórída.

Keating Holland, sem fer með stjórn kannananna hjá CNN, segir að hitamálin í Flórída séu meðal annars olíu- og gasvinnsla úr hafsbotninum undan strönd ríkisins sem hafi svo bein áhrif á annað stórmál þar á bæ - nefnilega eldsneytisverðið.

Flórída er þó ekki eini vígvöllurinn, ljóst er að frambjóðendurnir þurfa að hafa sig alla við til að vinna Ohio-búa á sitt band en þar segjast 49 prósent munu kjósa Obama en 47 prósent McCain. CNN metur stöðuna svo að gengju Bandaríkjamenn að kjörborðinu í dag væri Obama öruggur um 233 kjörmenn en McCain 189. Þá eru enn 116 í pottinum en atkvæði 270 kjörmanna opna dyr Hvíta hússins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×