Erlent

Ólafur Ragnar frestar för til Bangladess til þess að samfagna strákunum okkar

Forseti Íslands seinkar komu sinni á ráðstefnu um loftslagsbreytingar í Bangladess til að geta sæmt íslenska handboltalandsliðið fálkaorðunni á morgun. Ólafur Ragnar Grímsson ætlaði að fara beint frá Kína til Dhaka í Bangladess, til þess að halda þar fyrirlestur á mikilli ráðstefnu um loftslagsbreytingar.

Í erlendum fréttaskeytum segir að hann hafi aflýst komu sinni af óþekktum ástæðum. Að sögn Örnólfs Thorssonar forsetaritara er þó aðeins um seinkun að ræða. Forsetinn fer sumsé til Íslands til þess að geta sæmt landsliðið í handknattleik fálkaorðunni á miðvikudag en fer svo rakleiðis til Dhaka til þess að halda fyrirlesturinn á föstudag eins og fyrirhugað hafði verið. Því er spáð að Himalajajöklarnir bráðni verulega á næstu fjórum áratugum. Þá má búast við því að flæði vatns aukist verulega niður á láglendið - á sama tíma og haf rís og úrkoma breytist með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í Bangladess ræðir forsetinn við kollega sinn Lajuddin Ahmad forseta Bangladess og aðra ráðamenn. Ahmad - sem er jarðfræðingur sjálfur - segir að Bangladess kunni að minnka um allt að þriðjung vegna afleiðinga loftslagsbreytingar. Bangladess má ekki við því - þar búa 145 milljónir manna í einu af fátækustu löndum heims.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×