Viðskipti innlent

Hildur og Gunnar Þór á leið úr stjórn SPRON

Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON.
Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON. MYND/Vilhelm

Hvorki Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON, né Gunnar Þór Gíslason, stjórnarmaður í félaginu, bjóða sig áfram fram til stjórnarsetu í félaginu. Þetta má sjá á heimasíðu félagsins.

Þar kemur fram að Ari Bergmann Einarsson, Ásgeir Baldurs og Erlendur Hjaltason gefa áfram kost á sér í stjórnina og tvær konur, þær Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist, sækjast einnig eftir sæti í stjórinni. Kosið verður í stjórnina á aðalfundi á miðvikudag.

Stjórn SPRON hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að birta ekki upplýsingar um sölu stjórnarmanna á hlutum í félaginu áður en það fór á markað. Hafa Samtök fjárfesta gagnrýnt svör fyrirtækisins vegna þess. Þar hefur komið fram að SPRON hafi ekki verið heimilt að birta opinberlega upplýsingar um viðskipti stjórnarmanna „þar sem það var talið geta valdið ruglingi við hlutabréfamarkaðinn."

Hildur Petersen var í hádegisviðtalinu á Stöð 2 þann 5. febrúar. Þar var hún spurð um orðróm þess efnis að hún væri á leið úr sæti stjórnarformanns. Þá sagðist Hildur ekki hafa heyrt hann en að hún myndi bjóða sig fram aftur á aðalfundi 27. febrúar. Það væri svo hluthafa að taka ákvörðun um það.

Athygli vekur að Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, sækist eftir endurkjöri sem varamaður í stjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×