Lífið

Söng dáleiddur í Smáralindinni

Breki Logason skrifar
Regína Ósk og Friðrik Ómar ætla sér langt í Serbíu.
Regína Ósk og Friðrik Ómar ætla sér langt í Serbíu.

„Ég er ekki frá því að þetta hafi virkað, ég var allavega alveg marinn á bringunni eftir þetta," segir Friðrik Ómar Hjörleifsson sem lét dáleiða sig rétt áður en hann sigraði Eurovision á laugardaginn.

„Eins og alltaf þegar maður er í svona þá vantar manni einhverja svona ró. Vinkona mín sem hefur lært dáleiðslu ákvað því að hjálpa mér. Þegar ég syng er ég vanur að lemja vinstri hendinni í brjóstið á mér og hún ákvað að búa þar til svona orkustað þannig að í hvert skipti sem ég sló þá fann ég svona sigurtilfinningu," segir Friðrik Ómar sem fannst tilfinningin mjög notaleg.

Eins og flestir vita sirguðu þau Friðirk og Regína Ósk Eurovision keppnina á laugardaginn með lag Örlygs Smára, This is my life.

Í dag hafa heyrst raddir þess efnis að Örlygur sé jafnvel að hugsa um að skipta um flytjendur fyrir úrslitin í Serbíu. „Ég hef nú ekkert heyrt um það, hver ætli sé að koma þeirri kjaftasögu af stað?," spyr Friðrik Ómar og hlær.

Ummæli Friðriks eftir keppnina hafa vakið nokkurt umtal en hann sagði í viðtali strax eftir keppnina að það myndi glymja hæst í tómri tunnu. Hann segist ekki sjá eftir ummælunum en þeim var beint til áhangenda Merzedes Club sem höfðu uppi leiðinda hróp og köll þegar Friðrik Ómar steig á svið.

„Ég vil nú ekki hafa það eftir en fólk veit alveg hvað ég er að tala um. Maður er alltaf að berjast fyrir sínum tilverurétti. Ég vil frekar að fólk tali jákvætt um þetta og ég tel mig vera góða fyrirmynd enda hef ég verið sóma ríkisborgari og ætla að halda því áfram," segir Friðrik sem hefur reynt að hvíla sig síðan á laugardaginn.

„Í gær og í dag hef ég fundið að svolítið hefur breyst. Maður verður að passa sig aðeins meira og það er fylgst meira með því sem ég segi," segir Friðrik og hlær.

Friðrik og Regína ætla sér stóra hluti úti í Serbíu. Eurobandið svokallaða er eina Eurovisonhljómsveitin í heiminum sem starfar allt árið um kring og hún fer með út.

Friðrik segir að ekki sé búið að ákveða hvort farið verði í kynningarferð um Evrópu fyrir keppnina. „Ég á samt góða vini í Litháen og þeir virðast mjög meðvitaðir um að ég sé að keppa fyrir Ísland. Ég vona því að mínir menn þar kynni okkur vel," segir Friðrik sem hefur fulla trú á 12 stigum frá Litháum.

„Núna þurfum bara á stuðningi þjóðarinnar að halda og við höfum tröllatrú á þessu atriði. Það komst t.d kalkúnn áfram frá Írlandi á laugardaginn, þannig að við mætum bara út með djúpsteikingarpottinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.