Erlent

Gustav olli mun minna tjóni en búist hafði verið við

Fellibylurinn Gustav fór framhjá New Orleans borg í gærkvöldi og olli mun minni skaða í Louisiana ríki en vænst var. Mjög hefur dregið úr styrk Gustavs og er hann nú skilgreindur sem hitabeltisstormur.

Flóðavarnir New Orleans héldu er Gustav fór framhjá borginni og lítið tjón varð af völdum fellibylsins. Þrátt fyrir þetta hefur borgarstjórn New Orleans hvatt íbúana sem flúðu borgina um helgina að snúa ekki aftur til heimili sinna fyrr en á morgun, miðvikudag þar sem hættuástandi hefur ekki enn verið aflýst í borginni.

Yfir 200.000 manns flúðu borgina á sunnudag og voru aðeins 10.000 íbúanna í borginni er Gustav fór framhjá henni. Gustav stefnir nú til Texas og er búist við miklum rigningum þar í kjölfar stormsins.

Þá hefur komið í ljós að skemmdir á olíuvinnslusvæðunum í norðanverðum Mexíkóflóa af völdum Gustavs voru óverulegar. Þetta hefur leitt til þess að heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði töluvert í morgun eða úr 116 dollurum á tunnuna og niður í 111 dollara. Jafnframt styrktist dollarinn og hefur ekki verið sterkari í átta mánuði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×