Viðskipti innlent

Gjaldþrot Lehman óþægilegt fyrir Milestone en breytir engu

Gjaldþrot Lehman Brothers mun ekki hafa áhrif á skráningu Moderna á markað í Svíþjóð. Guðmundur Ólason forstjóri Milestone sem á Moderna segir að þótt málið sé óþægilegt fyrir þá, enda Lehman ráðgjafi við skráningu Moderna, standist allar áætlanir að öllu óbreyttu.

"Það eru engar fjárhagslegar skuldbindingar á milli okkar og Lehman að öðru leyti en þessi ráðgjöf þeirra við skráningu Moderna," segir Guðmundur í samtali við Vísi.is "Og vinnan við skráninguna er það langt á veg kominn að þetta hefur ekki áhrif á áform okkar. Við höfum sagt að Moderna verði skráð á markaðinn í Svíþjóð á fyrrihluta næsta árs og það mun standast að öllu óbreyttu."

Fram kemur í máli Guðmundar að gjaldþrot Lehman Brothers hafi fyrst og fremst verið persónulega erfitt fyrir þá starfsmenn Lehman sem unnu með Milestone að skráningu Moderna enda þeir óöruggir um framtíð sína. "Hinsvegar eru ekki öll kurl komin til grafar og ef það kemur á daginn að Barclays kaupi Evrópustarfsemi Lehman munu þessir starfsmenn væntanlega halda áfram að vinna með okkur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×