Erlent

Tæplega 2 milljónir manna á flótta undan Gústaf

Tæplega 2 milljónir íbúa í Louisiana eru nú á flóttan undan fellibylnum Gústaf en hann mun ná landi seinnipartinn í dag.

Yfir 200.000 íbúa New Orleans hafa yfirgefið borgina sökum komu fellibylsins og segja borgaryfirvöld að í gærkvöldi hafi aðeins um 10.000 íbúar verið eftir í borginni. Borgarstjórinn Ray Nagin hafði krafist þess um helgina að borgin yrði rýmd áður en Gústaf næði landi.

Sem stendur stefnir Gústaf beint á borgina en þó fellibylur breyti aðeins stefnu og fari framhjá borginni er reiknað með að töluverð flóð muni skella á borginni.

Gústaf hefur sett fleira en líf íbúa Louisiana úr skorðum því búið er að fresta allri dagskránni á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Minnesota sem hefjast átti í dag. Bush bandaríkjaforseti og Laura kona hans hafa afboðað komu sína á flokksþingið og hið sama hafa Cheney varaforseti og Arnold Schwarzenegger ríkisistjóri Kalifórníu gert.

Þá hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað í morgun vegna þess að talið er að Gústaf muni valda usla á olíuvinnslusvæðunum í norðanverðum Mexíkóflóa. Stendur olíutunnan í 116 dollurum þessa stundina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×