Erlent

Einn af hverjum fjórum Bretum óánægður með starf sitt

Einn af hverjum fjórum Bretum á vinnumarkaðinum þar í landi er óánægður með starf sitt samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var á vegum Verkamannasambandsins þar í landi.

Og þriðjungur telur sig ekki eiga samleið með yfirmönnum sínum á vinnustað. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var í síðasta mánuði.

Helstu ástæður fyrir óánægju þessara starfsmanna eru of mikið vinnuálag og það að kaupið er of lágt. Þá kvörtuðu tveir af hverjum fimm yfir stressi á vinnustað og um þriðjungur kvartaði undan litlum möguleikum á stöðuhækkunum á vinnustað sínum. Þá kom einnig fram að 14% segjast hafa verið lagðir í einelti í núverandi starfi sínu.

Rannsókn þessi náði til tæplega 3.000 starfsmanna í ýmsum atvinnugreinum. Brendan Barber formaður breska Verkamannasambandsins segir að þessar tölur sýni að betur má ef duga skal og hvetur hann breska stjórnmálamenn til að taka tillit til þess sem rannsóknin leiddi í ljós.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×