Viðskipti innlent

Seðlabankinn segir fjármálakerfið vera í meginatriðum traust

Í tímariti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, sem kom út í dag er endurtekið það álit greiningar bankans að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Hinsvegar munu ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna.

 

Í ritinu segir m.a. að atburðarás sem hófst eftir mitt síðasta ár og afleiðingar hennar á alþjóðlegum fjármálamarkaði voru óvæntar. Áhættusækni vék fyrir áhættufælni og ekki sér fyrir endann á óvissu sem birtist m.a. í lausafjárþrengingum og áhyggjum af efnahagshorfum.

Seðlabankinn gerði ekki ráð fyrir að veðrabrigðin yrðu svo skörp sem raun ber vitni. Í skýrslu bankans í fyrra var engu að síður varað við hættum sem framundan kynnu að vera.

 

Bankarnir voru á margan hátt vel búnir undir að mæta lausafjárþrengingum og efnahagslegum áhrifum þeirra á starfssvæðum sínum. Að nokkru má rekja það til viðbragða þeirra við andstreyminu sem þeir mættu á fyrri hluta árs 2006 en sá vandi var ekki alþjóðlegur. Nú takast þeir á við lækkun eignaverðs, hækkun fjármagnskostnaðar og takmarkaðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum.

 

Nauðsynlegt er þó að benda á áhættuþætti sem gætu reynst erfiðir viðfangs við þær aðstæður sem framundan kunna að vera. Á liðnu ári hækkaði hlutfall stórra áhættuskuldbindinga af eigin fé bankanna sem

og hlutfall eignarhaldsfélaga í útlánum. Ástæða er til að gefa þeirri þróun gaum.

Þá er enn töluvert um útlán með veði í hlutabréfum. Verðmæti veðanna hefur lækkað á síðustu misserum. Lítið hefur þó verið um þvingaðar sölur vegna veðkalla og tryggingarþekja bankanna er rúm samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×