Viðskipti erlent

Ástralir lækka stýrivexti sína

Seðlabanki Ástralíu lækkaði stýrivexti sína um 0,75 prósentustig niður í 5,25%. Vextir hafa nú ekki verið lægri í Ástralíu síðan í mars 2005 en ástralski dollarinn hefur líkt og íslenska krónan verið í klúbbi hávaxtamynta undanfarin misseri.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að vaxtalækkanir fara nú eins og faraldur um heimskringluna. Seðlabankar víða um heim keppast við að lækka stýrivexti sína til að koma í veg fyrir frekari samdrátt og bregðast þannig við versnandi horfum í heimsbúskapnum.

Lækkunin var umfram væntingar og gera sérfræðingar nú ráð fyrir því að vextir verði lækkaðir enn frekar í Ástralíu og muni standa í 4% um mitt næsta ár. Ástralía fetar nú í fótspor Bandaríkjanna, Kína, Japan, Indlands, Noregs og fleiri ríkja sem lækkað hafa vexti sína undanfarnar vikur.

Þá er búist við því að Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki lækki vexti sína á fimmtudaginn á reglubundnum vaxtaákvörðunardögum bankanna. Stýrivextir á Evrusvæðinu eru nú 3,75% en búist er við að Seðlabanki Evrópu muni lækka þá niður í 3,25% á vaxtaákvörðunardegi sínum á fimmtudaginn. Þá er búist við að Englandsbanki lækki einnig vexti sína um 0.5 prósentustig þ.e. niður í 4%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×