Viðskipti innlent

NordVest verður Reykjavík Capital

NordVest var áður til húsa á Suðurlandsbraut. Reykjavík Capital verður til húsa í Borgartúni.
NordVest var áður til húsa á Suðurlandsbraut. Reykjavík Capital verður til húsa í Borgartúni.

Reykjavík Capital hefur tekið yfir eignasafn og starfsemi NordVest Verðbréfa hf. Arnar Bjarnason hefur verið ráðinn forstjóri félagsins.

Reykjavík Capital hf. er fjármálafyrirtæki, í eigu Sparisjóðs Mýrarsýslu. Félagið hóf formlega starfsemi sína þann 31. mars.

Síðastliðið sumar gekk Sparisjóður Mýrarsýslu (SPM) frá kaupum á rúmlega 95% hlut í verðbréfafyrirtækinu NordVest Verðbréf hf. Í framhaldi af því óskaði sparisjóðurinn eftir því við Fjármálaeftirlit (FME) að það heimilaði SPM að fara með ráðandi eignarhlut í félaginu. Í byrjun febrúar heimilaði FME þann ráðahag og í framhaldi af því gekk SPM frá kaupum á öllu útistandandi hlutafé félagsins þannig að það er nú 100% í eigu Sparisjóðs Mýrarsýslu.

Á aðalfundi NordVest verðbréfa hf. þann 18. mars s.l. var ákveðið að breyta nafni NordVest hf. í Reykjavík Capital hf. Jafnframt ákvað SPM að auka verulega eigið fé félagsins með því að auka hlutafé félagsins umtalsvert og hafa þeir fjármunir þegar verið greiddir inn til Reykjavík Capital. Að sama skapi er stefnt að því að efla rekstur Reykjavík Capital með markvissum aðgerðum á næstu misserum. Fyrst í stað verður starfsemi félagsins einkum á sviði verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar en stefnt er að útvíkkun starfsemi félagsins síðar á þessu ári.

Á aðalfundi NordVest hf. (nú Reykjavík Capital hf.) þann 18. mars var kosin ný stjórn fyrir félagið, en hana skipa: Bernhard Þór Bernhardsson, framkvæmdastjóri hjá SPM, Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri hjá SPM og Lilja Jónasdóttir, hæstaréttarlögmaður.



„Ég lít á þetta sem nýtt upphaf. Það er búið að efla og styrkja félagið mikið og það er vel í stakk búið til að sinna þeim verkefnum sem fyrir eru og einnig að sækjast eftir nýjum. Það er mjög mikils virði á tímum sem þessum að hafa sterka bakhjarla og Sparisjóður Mýrarsýslu er að fullu í eigu sveitarfélagsins Borgarbyggðar og slík staða getur skipt miklu máli á erfiðum tímum eins og fjármálamarkaðir ganga nú í gegnum. Reykjavík Capital mun fyrst og fremst leggja áherslu á fyrirtækjaráðgjöf þar sem félagið býr yfir mikilli þekkingu. Þá verður hefðbundin verðbréfamiðlun einnig veigamikill hluti af starfseminni," segir Arnar Bjarnason forstjóri Reykjavík Capital hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×