Viðskipti erlent

Greining Glitnis spáir tæplega 18 prósenta verðbólgu

MYND/Heiða

Greining Glitnis spáir 2,3 prósenta hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember, sem þýðir að ársverðbólgan eykst úr 15,9 prósent í 17,8 prósent.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að það séu innflutningsdrifnir liðir á borð við mat og drykkjarvörur, föt og skó, húsgögn og heimilisbúnað auk ýmissa undirliða ferða og flutninga sem þrýsta neysluverði upp um þessar mundir. Þeir liðir sem tengjast frekar innlendum vörum og þjónustu breytast mun minna. Til lækkunar vega svo eldsneyti og húsnæðisliður vísitölunnar ef spá Glitnis gengur eftir.

„Gengisvísitalan hefur hækkað um rúmlega 40% frá byrjun septembermánaðar. Slík gengislækkun sem ekki gengur til baka til skemmri tíma leiðir að mati greiningarinnar til u.þ.b. 15% hækkunar neysluverðs að öðru óbreyttu. Það mildar þó höggið töluvert að hrávöruverð hefur lækkað mikið frá miðju ári á heimsmörkuðum.

Krónan er í raun nánast eini verðbólguvaldurinn um þessar mundir. Húsnæðisverð hefur nánast staðið í stað undanfarið og útlit er fyrir talsverða nafnverðslækkun þess á komandi misserum. Þá hefur ört vaxandi atvinnuleysi tekið við af yfirspenntum vinnumarkaði og snarlega hefur hægt á launaskriði.

Slæmar horfur í efnahags- og atvinnulífinu virðast einnig hafa dregið úr þrýstingi á endurskoðun kjarasamninga til umtalsverðrar launahækkunar í vetur. Hrávöruverð hefur auk þess lækkað mikið sem fyrr segir og slæmar efnahagshorfur á heimsvísu draga úr öðrum erlendum verðþrýstingi," segir greiningardeildin.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×