Viðskipti erlent

Sögufrægur demantur sleginn fyrir metfé hjá Christie´s

Hinn sögufrægi Wittelsbach demantur var sleginn fyrir 16,3 milljónir punda á uppboði hjá Christie´s í London í vikunni eða hátt í 3 milljarða kr.. Um er að ræða hæsta verð sem nokkurn tímann hefur fengist fyrir demant á uppboði. Fyrirfram var talið að um 9 milljónir punda fengjust fyrir gripinn.

Wittelsbach demanturinn komst fyrst í sögubækurnar á 17. öld er hann var gefin Infanta Margarita Teresa af föður hennar Philip IV Spánarkonungi. Infanta fékk demandinn sem heimamund skömmu fyrir trúlofun sína og Leopold I konungs Austurríkis. Hinsvegar er talið að upprunalega hafi demanturinn komið úr námu í Indlandi.

Infanta þótt sérstaklega fögur bláeyg og ljóshærð stúlka og hún er höfuðpersónan í þekktasta málverki Diego Velázquez sem málað var 1656 og ber heitið Las Meninas.

Leopold I varð síðar Rómarkeisari en Infanta lést aðeins 21 árs að aldri. Hún hafði þá alið Leopold fjögur börn en aðeins eitt þeirra komst á legg.

Demanturinn sem er blár að lit, sem er einn sjaldgæfasti litur á demnöntum, varð síðar hluti af krúnudjásnum Austurríkis og Bæjaralands en var seldur í einkaeigu árið 1931. Hann hefur verið hluti af einkasafni síðan 1964.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×