Viðskipti erlent

Salan á Woolworths í uppnámi vegna fyrirstöðu banka

Salan á Woolworths verslunarkeðjunni í Bretlandi er komin í uppnám þar sem bankar þeir sem eiga skuldir keðjunnar neita að staðfesta söluna. Baugur á rúmlega 10% hlut í Woolworths.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Woolworths, sem rekur 800 verslanir, átt í samningum við Hilco sem sérhæfir sig í endurbyggingu fyrirtækja.

Samkomulag lá á borðinu um að Hilco keypti Woolworths á eitt pund en tæki í staðinn við hluta af skuldum keðjunnar upp á 250 milljónir punda eða yfir 50 milljarða kr.. Woolworths skuldar alls 385 milljónir punda.

Hópur banka og fjárfestingarsjóða á fyrrgreindar skuldir en fyrir hópnum fara Burdale Financial, dótturfélag Bank of Ireland, og GMAC Commercial. Í frétt um málið í breska blaðinu Telegraph segir að ekki hafi tekist að ná í talsmenn þessara félaga. En samkvæmt heimildum innan Woolsworths eru samningar nú við að renna út í sandinn.

Ef Woolworths fer í gjaldþrot munu tugir þúsunda manns missa vinnu sína.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×