Viðskipti erlent

Ótti réð örlögum Sterling

Fjárfestingarsjóðurinn Axcel gafst að öllum líkindum upp á að kaupa Sterling vegna ótta við viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og hins mikla áhuga fjölmiðla á félaginu.

Þetta kemur fram í umfjöllun Jyllands-Posten um málið í dag. Þar er haft eftir Lisu Bo Larsen eins af skiptastjórum Sterling að Axcel hefði ekki haft hugrekki til að klára dæmið og því hefðu kaupin farið út um þúfur.

Axcel óttaðist að mótmæli verkalýðshreyfingarinnar myndi þýða að fólk veldi frekar önnur flugfélög en að fljúga með Sterling. Hvað mótmælin varðar var það einkum verkalýðsfélagið CAU (Cabin Attendents Union) sem lét hörð orð falla um það samkomulag sem náðst hafði við flugmenn og flugliða Sterling. Þessir starfsmenn ætluðu að taka á sig 10% launskerðingu til að koma Sterling í loftið að nýju.

CAU hefur nú lýst yfir ánægju með að Axcel hefur fallið frá kaupunum á Sterling.

Fleiri en verkalýðsfélög voru óhress með að Sterling yrði endurreist. Stig Elling forstjóri Star Tours segir að fólk innan geirans hafi furðað sig á því að nokkur hefði áhuga á þessari sultukrukku. "Ekkert flugfélag vildi snerta við Sterling, byggja það upp frá grunni og jafnvel nota nafnið áfram eftir að það var rúið öllu trausti," segir Elling.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×