Skoðun

Nýir tímar í neytendamálum

Í vikunni hófst fundaferð viðskiptaráðuneytisins um neytendamál. Við höldum opna fundi hringinn í kringum landið í tveimur lotum; nú í september og aftur síðar í vetur. Markmiðið er tvíþætt; að kynna stefnumörkun okkar og kalla eftir viðhorfum fólksins í landinu. Hvað brennur á hverjum og einum og hvernig má sem best bæta stöðu almennings í landinu.

Stórt skref í stefnumótuninni var stigið fyrr á árinu með úttekt þriggja stofnana Háskóla Íslands um stöðu neytendamála á Íslandi. Þar kemur margt afar gagnlegt fram enda í fyrsta sinn sem úttekt fer fram á stöðu neytendamála hér.

Þá hefur fjöldi neytendamála verið færður í búning frumvarpa í ráðuneytinu og urðu mörg hver að lögum í vor. Þar ber hæst endurskoðun samkeppnislaga, innheimtulög, ný lög um neytendalán, lög um greiðsluaðlögun og frumvarp til laga um óréttmæta viðskiptahætti.

Miklu skiptir í þessu samhengi að efla stofnanir neytendamála og Neytendasamtökin, bæði fjárhagslega og lagalega. Slíkar tillögur liggja nú fyrir í skýrslu Lagastofnunar HÍ og síðar í inngangi mínum kynni ég í hvaða farveg þær breytingar fara.

Réttarstaða og greiðsluerfiðleikarMarkmið heildarstefnumótunar viðskiptaráðuneytisins er að skapa réttindum og hagsmunum neytenda verðugri sess í samfélaginu. Ennfremur að vinna gegn háu verðlagi á Íslandi, auðvelda almenningi að takast á við breytta heimilis- og verslunarhætti, styrkja og auka vitund neytenda um rétt sinn, innleiða í auknum mæli upplýsingatækni í þágu neytenda og styðja þá til að taka virkari þátt til að sinna hagsmunum sínum á markaði.

Nú þrengir að hjá mörgum sem skuldsettir eru. Fólk sem lendir í efnahagsáföllum þarf að fá rýmri möguleika til að koma undir sig fótunum á ný og við þurfum að gera allt sem hægt er til að bæta stöðu skuldara og koma í veg fyrir að fólk verði gjaldþrota.

Lengi hefur tíðkast hér á landi að þeir sem hafa misst fótanna fjárhagslega, til dæmis vegna slysa eða veikinda, hafa þurft að vera í eins konar skuldafangelsi árum og jafnvel áratugum saman. Gild rök má færa fyrir því að einstaklingar muni skila miklu meiru og fyrr til samfélagsins fái þeir aðstoð við að semja um raunhæfar greiðslur eða niðurfellingu skulda eftir aðstæðum. Því er brýnt að lögfesta ákvæði um greiðslu­aðlögun og bindum við vonir við að slík löggjöf myndi hafa það í för með sér að gjaldþrotum einstaklinga fækki verulega. Forsætis­ráðherra hefur kynnt það að slíkt mál muni koma fram og er nú unnið að því í viðskipta- og dómsmálaráðuneytum. Seðilgjöld og yfirdráttarkostnaðurÍ byrjun árs kynnti ég niðurstöðu starfshóps sem ég hafði áður skipað um gjaldtöku fjármálastofnana. Niðurstaða hópsins var merkileg um margt og hefur afgerandi áhrif á stöðu stórra mála á borð við seðilsgjaldtöku og yfirdráttarkostnað. Samkvæmt niðurstöðunni er innheimta seðilgjalda óheimil nema með sérstöku samkomulagi við neytandann. Í framhaldinu gaf ég út tilmæli um það sem fylgt er eftir með úttektum á innheimtu seðilgjalda, takmarkanir verða settar á álagningu uppgreiðslugjalda og yfirdráttarkostnaður verður óheimill nema um hann hafi verið samið og að hann endurspegli upphæð og sé hóflegur. Að þau séu ekki samræmd og óháð yfirdreginni upphæð.

Niðurstaða hópsins er afdráttarlaust sú að bankar og sparisjóðir megi ekki á grundvelli laga heimila fyrirtækjum eða öðrum kröfuhöfum að bæta fylgikröfum við aðalkröfu gagnvart neytendum. Þá lagði starfshópurinn til að lögfestar yrðu reglur í lög um neytendalán um uppgreiðslugjald og að þar yrði kveðið á um að gjaldtakan skyldi eiga sér stoð í samningi og að lánveitandi gæti ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu væri gjaldfelling af hans hálfu. Það frumvarp hefur þegar verið lagt fram og er nú í viðskiptanefnd Alþingis til meðferðar.

Hvað uppgreiðslugjaldið varðar hefur nú verið lögfest á grundvelli niðurstaðna hópsins að óheimilt verði að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 milljónir króna eða minna. Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald má fjárhæð gjaldsins að hámarki vera það tjón sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skal miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta. Eftir þessari tillögu var farið og er að finna í lagafrumvarpi um neytendalán.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að óheimilt er að innheimta svokallaðan FIT-kostnað (kostnað vegna óheimils yfirdráttar) nema gjaldtaka eigi sér skýra stoð í samningi. Í framhaldinu var fest í lög að slíkur kostnaður skyldi vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins. NeytendavakningÞað er bæði von mín og vissa að það starf sem við höfum sett af stað í viðskiptaráðuneytinu muni skila sér í vakningu á meðal almennra neytenda. Öflugri og sanngjarnari löggjöf verði á sviði neytendaréttar og ekki síst því að viðskiptaráðuneytið verði framvegis og til framtíðar öflugt ráðuneyti neytendamála.

Því er einkar ánægjulegt að kynna afrakstur vinnu undanfarinna mánaða í formi skýrslnanna þriggja og fara nú um landið og kynna stefnuna og hlusta á raddir fólksins um þessi mál. Hvet ég landsmenn til að mæta á fundina og láta í sér heyra.

Höfundur er viðskiptaráðherra.



Skoðun

Sjá meira


×