Viðskipti erlent

Fjögur mál gegn Glitni þingfest í London

Nú hafa fjögur mál gegn Glitni verið þingfest fyrir rétti í London. Í gær bættust DZ Bank, Lloyds TSB Bank og Wachovia Bank í hóp þeirra 16 kröfuhafa sem ætla dómstólaleiðina til að fá eitthvað upp í skuldir Glitnis við þá.

Samkvæmt frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni nema kröfurnar í þessum fjórum málum yfir 200 milljón punda eða yfir 40 milljörðum kr.. Vaxtagreiðslurnar af þessum kröfum eru 25.000 pund á dag.

DZ Bank, stærsti fyrirtækjabanki Þýskalands, og fleiri voru með breytilega lánalínu til Glitnis sem var bundin þeim skilyrðum að ef Moody´s breytti lánshæfismati sínu á bankanum niður í Baa2 myndu lánin gjaldfalla samdægurs. Það gerðist 1. október s.l.. Síðan hafa engar greiðslur fengist hjá Glitni að því er segir í málsskjölum.

Talsmaður skilanefndar Glitnis vísaði á lögmannstofuna Grundberg Mocatta Rakison er Bloomberg leitaði eftir viðbrögðum við þessum málsóknum. Þar svöruðu menn hvorki símtölum né tölvupóstum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×