Viðskipti innlent

Flugvellir og ferðaskrifstofur tapa miklu á gjaldþroti Sterling

Bæði rekstarfélög flugvalla og ferðaskrifstofur munu tapa miklum fjárhæðum á gjaldþroti danska flugfélagsins Sterling. Eftir því sem segir á skandinavíska ferðafréttavefnum takeoff.dk mun Kastrup-flugvöllur missa tíunda hvern farþega sem fer um völlinn og í Billund er hlutfallið 20 prósent.

Á síðasta ári fór rúmlega 21 milljón farþega um Kastrup, þar af um tvær milljónir á vegum Sterling. Þá reyndust farþegar Sterling um 22,3 prósent af þeim 2,5 milljónum farþega sem fóru um Billund-flugvöll í fyrra.

Þá tapa minni ferðaskrifstofur tugmilljónum króna á gjaldþrotinu. Sumar þeirra, eins og Skan Rejser, hafa selt pakkaferðir þar sem flogið er með Sterling og höfðu greitt fyrir flugið nú þegar. Þeir fjármunir eru nú tapaðir, um 5-6 milljónir danskra í tilviki Skan Rejser.

Forstjóri Skan Resjer, Torben Sivertsen, segir þó að reynt verði að semja við önnur flugfélög að fljúga með farþega í stað Sterling en ef það takist ekki þurfi að aflýsa ferðunum og endurgreiða farþegunum.

Sivertsen sendir íslenskum eigendum Sterling tóninn og segir þá hafa brugðist trausti ferðaskrifstofunnar. Forsvarsmenn Skan Rejser hafi ítrekað spurt um stöðu Sterling en alltaf verið sagt að aldrei hafi fleiri flugferðir selst. „Það hefur komið fram að Íslendingar hafi átt í vandræðum en þegar okkur er sagt að þeir (Sterling) eigi enn í viðskiptum þá treystum við því," segir Sivertsen. Gjaldþrot Sterling sé því eins og sprenging í augum ferðaskrifstofunnar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×