Skoðun

Hróp úr eyðimörkinni

Það hlýtur að vera skelfilegt að vakna við þá bláköldu staðreynd að hugmyndakerfi frjálshuga kapítalista sé hrunið eins og spilaborg! Sú lífshyggja að markaðurinn og samkeppnin leysi öll mál farsællega hefur beðið skipbrot.

Það er líka býsna forvitnilegt að huga að því til hvaða ráða er gripið þegar spilaborgirnar eru að hrynja hver af annarri. Hver er þá boðskapur þeirra sem eru við stjórnvölinn hverju sinni? Hann er í stuttu máli eitthvað á þá leið að nú verði þjóðin að standa saman; einungis með samstöðu takist henni að vinna sig frá vandanum. Hefur þessi boðskapur heyrst áður þegar annaðhvort þjóðin sem heild eða einstök byggðarlög hafa átt í vanda?

Hvað lá t.d. til grundvallar verslunarfélögunum sem stofnað var til upp úr miðri 19. öldinni, sem kaupfélögin leystu síðan af hólmi og hinum fjölmörgu félagslega reknu bæjarútgerðum þegar til þeirra var stofnað? Það var nákvæmlega þessi félagslega hugsun og samkennd að með sameinuðum kröftum mundi takast að stofna og starfrækja fyrirtæki sem veitt gætu atvinnu í byggðarlagi sem hafi átt undir högg að sækja. Félagslega rekin fyrirtæki voru stofnuð víða um landið og með þeim færðist nýtt líf í byggðarlagið. Þetta voru fyrirtæki sem reist voru af mikilli elju íbúanna, fyrirtæki sem íbúarnir unnu hjá af trúmennsku vegna þess að þeir áttu þau sjálfir, höfðu í mörgum tilfellum lagt fram spariféð sitt eða vinnu án endurgjalds til þess að koma þeim á fót.

Í þessu sambandi má t.d. nefna Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) sem stofnað var um miðja 20. öld sem ásamt iðnaðarfyrirtækum Sambandsins sáluga og voru helsti atvinnurekandinn á Akureyri allt fram á 9. áratuginn. Þá var ÚA selt einkaaðilum sem hafa hægt og bítandi verið að draga úr starfsemi þess á Akureyri. Sama má vafalítið segja um mörg önnur félagslega rekin fyrirtæki. Þegar þau voru orðin þokkalega sjálfbær og álitlegar rekstrareiningar, kom einkagróðahyggjan til skjalanna og kvað upp þann úrskurð að félagslega formið væri úrelt og stæði í vegi eðlilegra framfara. Einkavæðingin væri kall tímans, kall sem öllum bæri að hlýða. Kall sem nú hefur breyst í hróp úr eyðimörkinni til almennings um samstöðu og félagslegar lausnir.

Höfundur er vélfræðingur.








Skoðun

Sjá meira


×