Erlent

Putin kennir Bandaríkjamönnum um átökin í Georgíu

Putin, ásamt Medvedev forseta Rússlands. Mynd/ AP.
Putin, ásamt Medvedev forseta Rússlands. Mynd/ AP.

Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands, segir að Bandaríkjamenn beri ábyrgð á átökunum í Georgíu. Hann segir að Bandaríkjamenn hafi ýtt undir átökin í von um að þau myndu gagnast öðrum forsetaframbjóðandanum í Bandaríkjunum.

Putin sagði í samtali við bandarísku CNN sjónvarpsstöðina að bandarískir borgarar væru á svæðinu þar sem átökin færu fram og tæku beinum skipunum frá stjórnvöldum. Varnarmálayfirvöld í Rússlandi segi sér bandarísk stjórnvöld líti svo á að stríðið í Georgíu geti gagnast öðrum forsetaframbjóðandanum. Þeir hafi því ýtt undir átökin.

Dana Perino talskona Hvíta hússins segir þessi ummæli vera mjög órökrétt og vísar þeim algjörlega til föðurhúsanna. Hún segir að ráðgjafar Putins séu einfaldlega að fara með fleipur og gefi Pútin vitlausar ráðleggingar.

Átök hafa geysað í Georgíu frá því í byrjun þessa mánaðar eftir að Georgíumenn réðust inn í Suður-Ossetíu héraðið og Rússar svöruðu með gagnárás á Georgíumenn. Evrópusambandið, undir stjórn Frakka, íhuga refsiaðgerð gegn Rússum vegna átakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×