Skoðun

Stúkan dýra

Ef ábyrg stjórnvöld væru við völd í Reykjavík væru viðbrögðin við svimandi háum bakreikningi frá KSÍ vegna stúkubyggingarinnar í Laugardal önnur en raun ber vitni. Hlutverk borgaryfirvalda ætti að vera það að halda utan um buddu borgarsjóðs og vísa ábyrgð borgarinnar á framúrkeyrslunni á bug, eins og efnisatriði málsins styðja.

En bitur og særður meirihluti í Reykjavík, með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann borgaráðs í broddi fylkingar, ólmast þess í stað við að koma ábyrgð yfir á pólitíska andstæðinga og þar með Reykjavíkurborg eftir langsóttum krókaleiðum.

Svaðið sem Vilhjálmur og meirihlutinn heldur sig í er orðið niðurstappað og einmanalegt og vonin um að komast upp úr því virðist slokknuð, hagsmunir borgarinnar og önnur slík æðri markmið hafa fjarlægst og allt kapp er lagt á að draga fleiri í svaðið með réttu eða röngu.

Þessi ófrægingarherferð meirihlutans er sérstaklega ómerkileg í ljósi þess að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lét það sjálfur dragast í meira en þrjá mánuði að skipa fulltrúa meirihlutans í byggingarnefnd Laugardalsvallar eftir kosningar 2006. Hann getur því kennt sér sjálfum um það að ekki var fundað í byggingarnefnd það sumar.

Vilhjálmur fékk einnig að vita um framútkeyrslu KSÍ sem borgarstjóri snemma hausts 2006 en hann gerði borgarráði aldrei grein fyrir málinu.

Hins vegar lét Dagur B. Eggertsson borgarlögmann fara yfir málið um leið og honum var gert viðvart um það haustið 2007 og gerði borgarráði grein fyrir því í kjölfarið.

Örvæntingarfullt fólk sem hefur engu að tapa sést ekki alltaf fyrir, það grípur stundum til örþrifaráða sem festa það í svaðinu og bætir í engu þeirra stöðu. Oddvitar meirihlutans í Reykjavík eru örvæntingarfullir og hafa pólitískt engu að tapa.

Reykjavíkurborg hefur hinsvegar miklu að tapa, því er óverjandi fyrir oddvitana örvæntingarfullu og aðra borgarfulltrúa meirihlutans að vinna geng hagsmunum borgarinnar, í langsóttri tilraun til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Höfundur er borgarfulltrúi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×