Viðskipti innlent

Fiskkaupmenn í Hull og Grimsby geta það sem SÍ getur ekki

Fiskkaupmenn i Hull og Grimsby geta það sem Seðlabanki Íslands getur ekki. Komið á gjaldeyrismiðlun milli Bretlands og Íslands.

Sökum þess að íslenskir fiskútflytjendur eru hættir að senda fisk til Bretlands því ekki er hægt að millifæra gjaldeyri milli landanna stefndi í óefni hjá fjölda af veitingastöðum sem selja fisk og franskar í norðausturhluta Englands.

Fiskkaupmenn í Hull og Grimsby sáu að við svo búið mátti ekki standa. Samkvæmt frásögn á vefsíðunni Fishupdate.com höfðu þeir samband við þingmann sinn, Austin Mitchell, og síðan var bankað upp á hjá Englandsbanka.

Fór svo að Englandsbanki gaf nokkrum breskum bönkum skipun um að leysa gjaldeyrisstífluna svo koma mætti íslenskum fiski til fyrrgreindra veitingastaða í gegnum fiskmarkaðina í Hull og Grimsby.

Steve Norton, formaður samtaka fiskkaupenda í Grimsby, segir að þeir hafi unnið af alefli við að fá gjaldeyrisviðskiptin í gang. „Við flytjum inn 27.000 tonn af fiski frá Íslandi árlega og því hætta á atvinnuleysi meðal félagsmanna okkar ef þetta ástand varir lengi," segir Norton. „Fiskmarkaðurinn hér hefði stoppað ef staðirnir sem selja fisk og franskar hefðu ekki getað fengið neinn fisk frá okkur."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×