Viðskipti innlent

Seðlabankinn neitar greiningardeildum

Óli Kristján Ármannsson skrifar

Bankastjórn Seðlabanka Íslands kveðst ekki sjá til þess forsendur að fulltrúar greiningardeilda bankanna sitji fréttamannafundi bankastjórnar né heldur að bankastjórnin efni sérstaklega til funda með greiningardeildunum. Þetta kemur fram í svari bankastjórnar Seðlabankans til forstöðumanna greiningardeilda stóru viðskiptabankanna þriggja um miðjan mánuðinn.

Greiningardeildir bankanna sendu Seðlabankanum sameiginlega erindi nokkrum dögum fyrr þar sem þess er farið á leit að bankastjórn Seðlabankans rökstyðji ákvörðun sína um að neita fulltrúum greiningardeilda bankanna um að sitja fjölmiðlafundi þar sem bankastjórnin kynnir stýrivaxtaákvarðanir sínar og svarar fjölmiðlum. Undir bréfið rita Ásgeir Jónsson fyrir Kaupþing, Edda Rós Karlsdóttir fyrir Landsbankann og Ingólfur Bender fyrir Glitni.

Greiningardeildirnar eru með töluverða útgáfu á netinu og fréttaflutning bæði af viðskiptum og efnahagslífi. Veit Markaðurinn til þess að starfsmaður greiningardeildar að minnsta kosti eins bankans spurðist um það símleiðis fyrir áramót hvort hann mætti ekki sitja kynningarfund bankastjórnarinnar, en fékk þau svör að það mætti ekki. Hin eiginlega vaxtaákvörðun er á hendi seðlabankastjóranna þriggja, en þeir hafa kosið að gefa greiningardeildum bankanna ekki kost á að spyrja þá beinna spurninga.

Í bréfi greiningardeildanna er sagt munu bæta gegnsæi og framgang peningastefnu Seðlabankans að fundargerðir af vaxtaákvörðunarfundum yrðu birtar opinberlega, líkt og þekkist hjá Seðlabanka Englands. „Að sama skapi myndi það auka gegnsæi verulega ef greiningardeildirnar fengju tækifæri til þess að spyrja bankastjórnina sjálfa spurninga í tengslum við vaxtaákvarðanir líkt og fjölmiðlar hafa nú á sérstökum blaðamannafundum," segir í bréfinu.

Í svarbréfi Seðlabankans er hins vegar á það bent að því fari fjarri að allir seðlabankar með verðbólgumarkmið birti fundargerðir af vaxtaákvörðunarfundum. Þá segist bankastjórnin ekki þekkja þess dæmi að fulltrúar greiningardeilda sitji fréttamannafundi bankastjórna seðlabanka um vaxtaákvarðanir. „Þess má raunar geta að það er ekki algilt að fréttamannafundir séu haldnir um vaxtaákvarðanir," segir bankastjórnin í svarbréfi sínu og bendir á að sérfræðingar Seðlabankans fundi þegar sérstaklega með greiningardeildum bankanna. Samkvæmt heimildum Markaðarins gætir hins vegar nokkurrar óánægju með afsvar Seðlabankans hjá greiningardeildunum, því þótt þær séu ánægðar með aðgengi að sérfræðingum Seðlabankans vilji þær einnig fá að leggja spurningar fyrir bankastjórnina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×