Viðskipti innlent

Stórkaupmenn kjósa um framtíðina

Pétur Björnsson
Pétur Björnsson

Kosið verður um aflagningu Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) á aðalfundi félagsins 7. mars og um samninga við Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) um stofnun nýrra heildarsamtaka.

„Ég get staðfest að fram kom lagabreytingartillaga fyrir lok tilskilins frests,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri FÍS. Til þess að tillagan nái fram að ganga þarf stuðning tveggja þriðju atkvæða.

Tillöguna leggja fram Pétur Björnsson, stjórnarformaður Ísfells og fyrrverandi formaður FÍS, og Margrét Kristmanns­dóttir, framkvæmdastjóri PFAFF og formaður Félags kvenna í atvinnurekstri, en hún er fyrrverandi varaformaður FÍS.

 

Margét Kristmannsdóttir

Viðræður um sameiningu félaganna höfðu staðið um nokkurt skeið í haust, en voru lagðar til hliðar þegar ekki náðist einhugur í stjórn FÍS um stefnuna. Tillaga Péturs og Margrétar kemur því málinu aftur á dagskrá. „Við töldum málið komið það langt að okkur þótti rétt að leggja þetta fyrir félagsmenn,“ segir Margrét og telur mikinn stuðning við stefnuna í félaginu. „Margir sjá hér tækifæri til að búa til langþráðan vettvang, þar sem fyrirtæki í verslun í landinu geta sameinast í einu hagsmunagæslufélagi. Það hefur alltaf staðið okkur nokkuð fyrir þrifum og veikt okkur gagnvart ýmsum aðilum, svo sem hinu opinbera, að við höfum ekki borið gæfu til að koma fram sem ein heild,“ segir hún og telur skiptingu félaganna í raun leifar frá fyrri tíð. „Núna teljum við bara að að það sé svo miklu meira sem sameinar okkur en sundrar.“ - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×