Viðskipti innlent

Íslensk skattyfirvöld vilja leyniupplýsingar

Ingimar Karl Helgason skrifar

„Við fylgjumst með því hvernig norræn skatt­yfirvöld fá þessar upplýsingar. Við höfum auðvitað alltaf áhuga á að fá upplýsingar, en það yrði aldrei þannig að við myndum kaupa þær eins og þeir gerðu í Þýskalandi," segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.

Fram kemur í norrænum fjölmiðlum að skattyfirvöld í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi hafi þegar haft samband við þýsk stjórnvöld og óskað eftir að fá upplýsingar um leynireikninga í Liechtenstein. Það hafa yfirvöld í Hollandi einnig gert. Þá eru Danir að undirbúa sams konar beiðni.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir ekki ólíklegt að málið verði rætt við norræn skatt­yfirvöld. Þýsk stjórnvöld segjast hafa upplýsingar um 1.400 leynireikninga í Liechtenstein. 600 þeirra séu í eigu Þjóðverja en fólk af öðru þjóðerni eigi hina reikningana 800. Talið er að á fimmta þúsund manns tengist reikningunum.

Dæmi mun vera um að Íslendingur hafi geymt eignir í Liechtenstein með svipuðum hætti.

Grunur er um að auðmenn hafi fært þangað fé til að fela fyrir skattyfirvöldum. Der Spiegel segir að milljarðar evra hafi farið framhjá skattyfirvöldum í Þýskalandi með þessum hætti. Tveir bankar í smáríkinu séu nú til rannsóknar. Thorsten Albig, talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins, segir í samtali við Financial Times, að þýsk yfirvöld séu tilbúin til að veita upplýsingar. Ekki verði óskað eftir greiðslu fyrir þær.

„Við höfum ekkert ákveðið í málinu og okkur hafa ekki verið boðnar upplýsingarnar," segir Bryndís Kristjánsdóttir. „Þegar þar að kemur kunnum við að óska eftir þeim á grundvelli tvísköttunarsamninga við önnur Norðurlönd og Þýskaland."

Björn Þorvaldsson, aðstoðarsaksóknari hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, segir að málið sé af því taginu að deildin og skattrannsóknarstjóri gætu átt um það samstarf. „Það er ekki komið svo langt, en ég útiloka ekki að efnahagsbrotadeildin muni taka þátt í því."

Liechtenstein er á lista OECD yfir ósamvinnuþýðar skattaparadísir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×