Viðskipti innlent

Stórfelldar breytingar hjá Skífunni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hjá Árdegi er unnið að breytingum hjá bæði Skífunni og BT, en um mánarmótin næstu verður til vörumerkið Skífan Express.
Hjá Árdegi er unnið að breytingum hjá bæði Skífunni og BT, en um mánarmótin næstu verður til vörumerkið Skífan Express.
Verslun Skífunnar í Smáralind verður lokað um næstu mánaðamót. Um leið verður sala á tónlist í verslunum BT færð undir nýtt merki Skífunnar Express. Þá er áformað að opna „tónlistarkaffihús“ tengt Skífunni á Laugavegi fyrir sumarið.

Sverrir Berg Steinarsson, forstjóri og annar aðaleigandi Árdegis sem á bæði Skífuna og BT, segir í raun verið að færa út kvíarnar í tónlistarsölu og efla hana með því að fara víðar með Skífuna í smærri einingum. Engar uppsagnir verða vegna breytingarinnar segir hann. Þá verður áfram opin verslun Skífunnar í Kringlunni.

„Þetta er mjög spennandi og verður gaman að fara með Skífuna víðar í smærri útgáfu,“ segir Sverrir og bætir við að um leið verði vöruúrval í tónlist „dýpkað og breikkað“.

Sverrir segir svo að áfram verði unnið að því að efla Skífuna. „Á Laugaveginum ætlum við að bæta í fyrir sumarið. Í kjallara Skífunnar höfum við verið með útgáfutónleika og annað slíkt og höfum hug á að nýta þá aðstöðu betur. Verið er að leita að samstarfsaðila um rekstur nokkurs konar tónlistarkaffihúss, ekki ósvipað bókakaffihúsum sem fólk þekkir, en þetta ætlum að reyna að vera komin með í gang fyrir sumarið.“ Að auki segir Sverri svo að í mars ljúki framkvæmdum við komuverslun Skífunnar í Leifsstöð. „Þar erum við að innrétta nýja Skífuverslun, þannig að það er nóg að gera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×