Viðskipti innlent

Bankarnir of stórir fyrir landið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í hraðbankanum Í nýrri skýrslu Moody's segir að draga myndi úr fjármálalegri áhættu ríkisins ef einhver bankanna drægi úr starfsemi sinni erlendis eða flytti höfðustöðvar sínar úr landi.
Í hraðbankanum Í nýrri skýrslu Moody's segir að draga myndi úr fjármálalegri áhættu ríkisins ef einhver bankanna drægi úr starfsemi sinni erlendis eða flytti höfðustöðvar sínar úr landi. Fréttablaðið/Stefán
Meðal þess sem lesa má úr nýrri umfjöllun alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody‘s er að myntsvæði krónunnar sé orðið of lítið fyrir bankana. Þetta segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Umfjöllun Moody‘s varðar Aaa lánshæfiseinkunn ríkissjóðs, en hana segir fyrirtækið vera á krossgötum.

Umfjöllun Moody‘s er þó um margt jákvæð, bæði í garð bankanna og ríkisins. Joan Feldbaum-Vidra, aðalhöfundur skýrslunnar, bendir þó á að hagkerfið hafi ekki farið varhluta af aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins er sagður hafa leitt til þess að ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafi vaxið upp fyrir það sem æskilegt geti talist.

Engu að síður segir Moody‘s líklegt að íslensk stjórnvöld geti mætt lausafjárbresti, varið innstæðueigendur og forðast greiðsluþrengingar jafnvel við sérstaklega erfið skilyrði. Vöxtur erlendra skuldbindinga bankakerfisins gæti hins vegar þegar fram í sækir reynt á getu stjórnvalda til að takast á við kreppu. „Að minnsta kosti með hætti sem samræmdist gildandi Aaa-einkunnum,“ segir hún.

Þá kemur fram að auka mætti svigrúm stjórnvalda til að glíma við áhrif kreppu í framtíðinni með viðameiri reglusetningu um lausafé banka eða með öðrum kerfisbreytingum sem milduðu hlutverk stjórnvalda sem lánveitanda til þrautavara í erlendri mynt. „Að lokum myndi sérhver þróun í þá átt að drægi úr erlendri starfsemi bankanna eða að þeir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi draga úr fjármálalegri áhættu ríkisins,“ segir í niðurlagi.

Ásgeir segir Moody‘s horfa til tvenns konar áhættu í rekstri bankanna, annars lausafjárstöðu á hverjum tíma og hins vegar til kvaða um um eiginfjárstöðu, en yrðu bankarnir fyrir miklum skakkaföllum þyrfti Seðlabankinn að hlaupa undir bagga.

„Þeir líta hins vegar ekki til mögulegs uppgjörs fjármálafyrirtækja í evrum sem hefði í sjálfu sér að einhverju marki létt þessum þrýsting af ríkinu. Það er ljóst að þetta myntsvæði er orðið of lítið fyrir bankana.“

Í mati á áhrifum þess að einhver bankanna færi úr landi, segir Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, Moody‘s einvörðungu líta til áhrifa þess á lánshæfismat ríkisins.

„En þeir eru ekkert að velta fyrir sér öðrum afleiðingum á borð við að missa héðan öflug fyrirtæki með fjölda fólks í vinnu. Þeir eru bara að benda á hvað bankarnir eru stórir og hversu mikið af erlendu skuldunum er á þeirra bókum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×