Sérfræðingar segjast hafa búist við leiðréttingu eftir uppgangstíma undanfarið en að þeim komi á óvart hversu skörp hún hafi orðið. Shanghai vísitalan féll um níu prósent í gær og hefur ekki fallið meir á einum degi í áratug. Síðar um daginn féll Dow Jones vísitalan í Bandaríkjunum um 3,3 prósent.
Verðlækkanir á hlutabréfum urðu þegar kaupahéðnar seldu bréfin í hrönnum eftir að orðrómur komst á kreik um að kínverska ríkisstjórnin hefði í hyggju að ráðast gegn ólöglegum hlutabréfaviðskiptum og hækka skatt á fjármagnstekjur.
Mikill uppgangur hefur verið í Kína undanfarið. Ein kínversk hlutabréfavísitala tvöfaldaðist að verðmæti á síðustu tólf mánuðum. Á sama tíma hefur Nikkei vísitalan í Japan verið á hraðri uppleið.