Viðskipti innlent

Icelandair kaupir tékkneskt flugfélag

Forsvarsmenn Icelandair tilkynna áform sín á blaðamannafundi í dag.
Forsvarsmenn Icelandair tilkynna áform sín á blaðamannafundi í dag. MYND/Stöð 2

Icelandair Group hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á tékkneska flugfélaginu Travel Service, stærsta einkarekna flugfélagi í Tékklandi. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu til OMX-kauphallarinnar rekur Travel Service leiguflugsstarfsemi, einkum frá Prag og Búdapest og á einnig og rekur lágjaldaflugfélagið Smart Wings.

Heildarvelta Travel Service á árinu 2006 var um 18 milljarðar króna. Félagið rekur alls 12 Boeing 737-800 og 787-500 farþegaþotur, flutti um 1,8 milljónir farþega á síðasta ári og flýgur til 230 áfangastaða í fjórum heimsálfum.

Fram kemur í tilkynningunni að á næstu vikum fari fram áreiðanleikakönnun og að henni lokinni er stefnt aðfrágangi samninga fyrir lok júní. Ef af verður mun Icelandair Group eignast helming í félaginu fyrir mitt árið, og félagið allt á árinu 2008. Kaupin verða fjármögnuð að hluta til með lánsfé.

Eftir kaupin verður áætluð velta Icelandair Group fyrir árið 2007 um 72 milljarðar króna, sem er um 30% aukning frá rekstrarárinu 2006. Áætlað er að velta Icelandair Group verði yfir 80 milljarðar króna á ársgrundvelli eftirkaupin á Travel Service.

Haft er eftir Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningunni að viljayfirlýsingin sé í samræmi við stefnu félagsins að hasla sér völl í alþjóðlegu leiguflugi. Horft hafi verið til austurhluta Evrópu þar sem forsvarsmenn Icelandair telji sig eiga erindi. Félagið hafi á síðasta ári keypt flugfélagið Latcharter í Lettlandi, sem gangi mjög vel, og nú sé tekið stórt skref áfram í þessa átt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×