Viðskipti erlent

JJB sports gefur út afkomuviðvörun

JJB Sports Plc, sem er að hluta í eigu Exista, gaf í dag út afkomuviðvörun en félagið rekur rekur 420 íþróttavöruverslanir í Bretlandi. Fram kemur í viðvöruninni að uppgjör fyrir fyrrihluta ársins sýndi hagnað fyrir skatt upp á 8 milljónir punda eða um einn milljarð kr. sem er 3,5 milljónum punda undir væntingum.

Fjallað er um málið í Vegvísi greiningar Landsbankans í dag. Þar segir að meginskýringin á 4,4% minni sölu nú í sumar en á sama tíma í fyrra er að í fyrra var mikil sala tengd heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem haldið var síðastliðið sumar.

Hlutabréf í JJB lækkuðu um tæplega 16% í kjölfar tilkynningarinnar og gengið fór niður fyrir 167 pens á hlut innan dags sem er lægsta gengi félagsins frá því í janúar 2006.

Exista keypti 29% hlut í JBB til helminga við aðra í júní 2006. Seljandinn var fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Dave Whelan, stofnandi JJB Sports og stjórnarformaður Wigan. Verðið var 275 pens á hlut eða samtals 190 milljón pund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×