Viðskipti erlent

Fresta tilraunaflugi á Dreamliner enn frekar

MYND/Boeing

Forsvarsmenn Boeing-flugvélaframleiðandans tilkynntu í dag að félagið þyrfti að fresta fyrsta flugi Boeing 787 þotunnar, sem einnig hefur verið nefnd Dreamliner, enn frekar. Ástæðan er sú að það hefur tekið lengri tíma en áætlað var að gera fyrstu vélina klára.

Til stóð að fyrsta vélin færi tilraunaflug seint í ágúst en því var frestað fram í október. Nú hefur fluginu aftur verið frestað og það fram í miðjan nóvember eða desember eftir því sem fram kemur á vef USA Today.

Vélin er fyrsta stóra farþegavélin sem er að mestu gerð úr kolefnistrefjum og segja forsvarsmenn Boeing að það muni draga úr eldsneytisnotkun og viðhaldi vélarinnar. Þessi seinkun á prófunum á þó ekki að koma í veg fyrir að fyrstu vélarnar verði afhentar í maí á næsta ári, til japanska félagsins All Nippon Airways. Þess má geta að Icelandair hefur pantað fjórar Dreamliner-flugvélar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×