Viðskipti innlent

Ákvörðun Seðlabankans lækkar markaðsvexti

Frá því að Seðlabankinn tilkynnti um óbreytta stýrivexti á fimmtudag hefur ávöxtunarkrafa á markaði lækkað töluvert. Ávöxtunarkrafa allra markflokka skuldabréfa hækkaði hinsvegar verulega eftir hækkun stýrivaxta í byrjun nóvember.

Greining Landsbankans fjallar um þetta í Vegvísi sínum. Þar segir að þetta kunni að skýrast af ólíkum áherslum í rökstuðningi bankans fyrir ákvörðuninni. Í tilkynningu bankans í nóvember fólust fyrirheit um frekari hækkanir ef að hagvísar sem lægju fyrir við vaxtaákvörðunina á fimmtudag gæfu til kynna meiri efnahagsumsvif og verðbólguþrýsting en gert var ráð fyrir í spá bankans.

Eins og Seðlabankinn benti sjálfur á í gær er ljóst að hann hefur heldur vanmetið kraftinn í efnahagslífinu. Þrátt fyrir það ákvað hann að hækka vexti ekki frekar og gaf ótvírætt til kynna að lækkandi eignaverð myndi að öllum líkindum leiða til samdráttar í eftirspurn og hjálpa til við að ná verðbólgunni niður.

Ekki var sama áhersla og áður á að vaxtamunur þyrfti að styðja við gengið og vinna þannig gegn verðbólgu. Bankinn er því farinn að horfa meira á þróun á fasteignamarkaði við ákvörðun sína og það kann að leiða til þess að honum verði fært að lækka vexti hraðar en ella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×