Viðskipti innlent

Hlutafé aukið um 64 milljarða í FL Group

Hlutafé í FL Group verður aukið um 64 milljarða.
Hlutafé í FL Group verður aukið um 64 milljarða.

Hlutafé í FL Group verður aukið um 64 milljarða og eigið fé félagsins verður 180 milljarðar eftir hlutafjáraukningu í félaginu sem samþykkt var í dag. FL Group kaupir hlut í öflugum fasteignafélögum fyrir 53,8 milljarða króna en allar eignirnar eru keyptar af Baugi Group.

Félagið eykur hlut sinn í norræna fasteignafélaginu Landic Property úr 2,9% í 39,8%, kaupir 32,3% hlut í Fasteignafélagi Íslands, 49,7% hlut í Þyrpingu, 22,7% hlut í Eik fasteignafélagi og kaupir eignarhluti í alþjóðlegum fasteignasjóðum af Baugi Group.

"Kaupin eru í samræmi við yfirlýsta fjárfestingastefnu félagsins um að auka vægi Private Equity í sínu eignasafni og sjáum við mikil tækifæri í frekari uppbyggingu þessara félaga. Þau skapa einnig gott mótvægi við fjárfestingar okkar í öðrum atvinnugreinum," segir Jón Sigurðsson, nýráðinn forstjóri FL Group.

Í tengslum við fjármögnun kaupanna, verður gefið út nýtt hlutafé að nafnvirði 3.659 milljónir í FL Group á genginu 14,7 til að fjármagna 53,8 milljarða kaupverð. Hlutirnir verða gefnir út til Baugs Group í skiptum fyrir umræddar eignir. Kaupin eru með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki hluthafafundar, sem verður boðaður í desember 2007.

Samhliða þessu hefur FL Group ákveðið að bjóða út nýtt hlutafé að markaðsvirði tíu milljarðar króna til fagfjárfesta á genginu 14,7. Baugur Group hefur skuldbundið sig til þess að selja allt að fimm milljarða króna að markaðsvirði í tengslum við fagfjárfestaútboðið til þess að mæta hugsanlegri umframeftirspurn á sama verði. Heildarupphæð hlutafjárútboðsins verður því allt að 15 milljarðar króna og mun Kaupþing banki hafa umsjón með því.


Tengdar fréttir

Stórir hluthafar í FL Group falla frá forkaupsrétti

Stærstu hluthafar FL Group og stjórn funduðu langt fram á nótt í húsi lögmannsstofunnar Logos í Efstaleiti. Hvorki Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður félagsins, eða Hannes Smárason forstjóri vildu tjá sig við Vísi að loknum fundinum.

Hlutur Hannesar í FL Group þynnist um 7%

Hannes Smárason er ekki lengur stærsti hluthafi FL Group. Með nýju útgefnu hlutafé upp á 64 milljarða hefur Baugur Group tekið við þeirri stöðu og fer nú með 35,9% hlut í félaginu. hlutur Hannesar fer úr 20,52% í 13,7%.

Viðskipti stöðvuð með hlutafé FL Group

Samkvæmt fréttabréfinu TravelPeople er Hannes Smárason hættur sem forstjóri FL Group. Samkvæmt tilkynningu kauphallarinnar hafa viðskipti með hlutafé FL Group verið stöðvuð og að frétt sé væntanleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×