Viðskipti innlent

510 milljarðar hafa gufað upp í Kauphöllinni

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans, hafa þurft að horfa upp á verðmæti bankans skreppa saman um rúma 158 milljarða á 60 dögum.
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans, hafa þurft að horfa upp á verðmæti bankans skreppa saman um rúma 158 milljarða á 60 dögum. MYND/VALLI

Virði íslensku félaganna í Kauphöllinni hefur lækkað um tæpa 510 milljarða frá 1. október síðastliðnum. Mest hefur markaðsvirði Kaupþings lækkað eða um 158,4 milljarða. Fimm félög hafa hækkað á þessu tímabili.

Það er óhætt að segja að undanfarnir 60 dagar hafi verið erfiðir fyrir fjárfesta í íslenskum félögum í Kauphöllinni. Lækkanir hafa dunið á fyrirtækjum flesta daga og hefur verðmæti sumra þeirra rýrnað um nær þriðjung á þessum sextíu dögum.

Mesta lækkunin í milljörðum talið er hjá Kaupþing en félagið hefur lækkað um 158,4 milljarða, úr 822,6 milljörðum í 664,2 milljarða eða um 19,3%. Metið í lækkun í prósentum á þó SPRON sem hefur lækkað um 35,7% á þeim rétt rúma mánuði sem félagið hefur verið skráð á markað eða um 29,6 milljarða að markaðsverðmæti.

Alfesca hefur hækkað mest eða um 800 milljónir að markaðsverðmæti en næst á eftir koma Nýherji og Teymi.

Viðskiptabankarnir þrír hafa lækkað um 270 milljarða að markaðsvirði á þessum 60 dögum og tvö stærstu fjárfestingafélögin, Exista og FL Group, hafa samanlagt lækkað um 135,1 milljarð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×