Viðskipti innlent

Glitnir byggir jarðvarmavirkjanir í Indlandi og Nepal

Það var glatt á hjalla þegar skrifað var undir viljayfirlýsinguna í Indlandi í dag.
Það var glatt á hjalla þegar skrifað var undir viljayfirlýsinguna í Indlandi í dag.

Glitnir hyggur á byggingu jarðvarmavirkjana í bæði Indlandi og Nepal samkvæmt viljayfirlýsingum sem bankinn undirritaði í dag. Hún kveður á um samstarf við orkufyrirtækið NJ Bhilwara Group sem er með starfsemi í báðum löndum.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Glitni leggur bankinn til sérfræðiþekkingu á sviði jarðvarma og skapar fjárhagslega umgjörð um verkefni sem tengjast jarðvarmavirkjunum. Indverska fyrirtækið sér um þróunarvinnu og stjórn verkefnisins á staðnum. Félögin vinna svo saman að þróun viðskipta- og verkefnaáætlunar.

Yfirlýsingin var undirrituð í móttöku sem fjármálaráðherra Indlands hélt til heiðurs Árna Mathiesen fjármálaráðherra sem nú er í opinberri heimsókn á Indlandi ásamt viðskiptasendinefnd til að kynnast þróun orkumála á Indlandi. Viljayfirlýsingin var undirrituð af Awadh B. Giri, framkvæmdastjóra orkusviðs LNJ Bhilwara Group, og Bala Murughan Kamallakharan, forstöðumanni á þróunarsviði Glitnis.

„Glitnir hefur náð góðum árangri í verkefnum sínum í Kína þar sem við lögðum til tækniþekkingu og fjármögnuðum verkefni í Xian Yang héraði. Við höfum trú á að hægt sé að þróa svipuð verkefni hér á Indlandi, " segir Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Glitnis í tilkynningunni.

„Indland er mjög áhugaverður markaður fyrir Glitni, sérstaklega á svið orkumála, þegar hafðar eru í huga spár um aukna orkuþörf Indverja. Indverjar þurfa á öllum orkulindum sínum að halda, sérstaklega endurnýtanlegri og grænni orku eins og jarðvarma. Við erum ánægð með að hefja samstarf við LNJ Bhilwara Group en fyrirtækið hefur sýnt fram á að það hefur getu til að byggja upp orkuver á Indlandi með mjög skilvirkjum hætti," sagði Árni Magnússon, forstöðumaður á fjárfestinga- og alþjóðasviði Glitnis.

„Við erum áhugasöm að hefja þróun jarðvarmavirkjana á Indlandi. LNJ Bhilwara Group var fyrsta fyrirtækið á Indlandi til að byggja 100 MW vatnsaflsvirkjun sem var í senn á undan áætlun og ódýrari en áætlað var. Þannig höfum við sett ný viðmið í byggingu vatnsaflsvirkjanna á Indlandi," sagði Awadh B. Giri, framkvæmdastjóri orkusviðs LNJ Bhilwara Group. Hann segir að Bhilwara haldi áfram að vaxa og víkka út starfsemi sína inn á svið endurnýtanlegrar orku á sama tíma og það sé leiðandi á markaði fyrir vatnsorku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×