Viðskipti erlent

Flestir lækka, en DeCode hækkar

Bandarísk hlutabréf tóku dýfu í dag og hafa Dow Jones og S&P 500 vísitölurnar ekki verið lægri í þrjá mánuði. Dow jones lækkaði um 1,65 prósent og S&P lækkaði um 1,74 prósent. Nasdaq vísitalan lækkaði einnig, um 1,66 prósent eða 43,86 stig.

Lækunin á Bandaríkjamarkaði er í takti við þróun mála á Vesturlöndum en lækkanirnar má rekja til ótta manna við að hræringum á lánamarkaði sé enn ekki lokið.

Þá á bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sach hlut að máli en hann lækkaði verðmat sitt á gengi nokkurra fjármálafyrirtækja í dag og býst við að Citigroup þurfi að afskrifa allt að fimmtán milljarða bandaríkjadala fasteignalán, jafnvirði 900 milljarða íslenskra króna, á næstu tveimur ársfjórðungum.

Inn í spilar dræmar væntingar manna um að einkaneysla ætli að glæðast í Bandaríkjunum. Þær eru með minnsta móti og bendir flest til að neytendur muni halda að sér höndum vegna hárra afborgana af húsnæðislánum, svo fátt eitt sér nefnt.

Gengi bréfa í DeCode er hins vegar undanskilið þróuninni því markaðsvirði fyrirtækisins jókst um 4,72 prósent eftir mjög sveiflukenndan dag. Gengið rauk upp um tæp 19 prósent á föstudag eftir að fyrirtækið setti á markað genapróf fyrir einstaklinga og stendur það í 3,77 dölum á hlut.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×