Viðskipti erlent

Tchenguiz tapaði 24 milljörðum kr. á Sainsbury

Jafnvel fyrir marg-margmilljarðamæring hlýtur 24 milljarða kr. búðarferð í stórmarkaðinn að láta til sín finna í veskinu. Þetta er sú tala sem auðjöfurinn Robert Tchenguiz er talinn hafa tapað Þegar yfirtakan á stórmarkaðakeðjunni Sainsbury gekk ekki eftir.

Hinn íranættaði Tchenguiz er litríkur viðskiptajöfur og þekktur fyrir margt. Hann hefur stundað töluverð viðskipti með Íslendingum í útrásinni og á nú rúm 5% í Exista sem skaffar honum sæti í stjórn þess félags. Í Bretlandi þar sem hann býr er Tchenguiz þekktastur fyrir lífstíl glaumgosa, samband sitt við wonderbra-módelið Caprice og félaga sinn Heather Bird sem telur sig hafa leyst gátunum að eilífu lífi.

Í umfjöllun The Indepentant um Tchenguiz í upphafi vikunnar segir m.a. að hann hafi veðjað skyrtunni á að Sainsbury myndi verða yfirtekið og því hlóð hann hlutafé þess í innkaupakerru sína sem mest hann mátti. Að lokum sat hann á 10% af keðjunni.

En fjölskyldan sem stjórnar, og á meirihlutann, í Sainsbury tókst að verjast yfirtöku. Raunar tvisvar á skömmum tíma og þegar fjárfestingarsjóður í Katar, með ríkissjóðinn þar í landi sem bakhjarl, hætt við áform sínum um að kaupa keðjuna fyrir 11 milljarða punda eða hátt í 1.500 milljarða kr. var Tchenguiz í slæmum málum.

Sjálfur yppir Tchenguiz öxlum og segir að hann muni eiga hlut sinn í Sainsbury til frambúðar. Og hver veit nema þriðji aðilinn dúkki upp sem vilji slást við fjölskylduna á bakvið Sainsbury-veldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×