Viðskipti innlent

Frekari sameiningar hjá sparisjóðum

Til stendur að sameina Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis eftir því sem fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar. Forsvarsmenn sjóðanna hyggjast leggja það til við stjórnir þeirra.

Sparisjóðurinn í Keflavík á nú þegar í sameiningarferli með Sparisjóði Vestfirðinga og Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að stofnfé verði aukið í tengslum við sameiningu Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Þórshafnar þannig að eigið fé nemi nærri 27 milljörðum króna. Ljóst sé að sjóðirnir geti í sameiningu sinnt enn stærri verkefnum og eflt þjónustu við viðskiptavini sína.

Endanleg ákvörðun um samruna verður lögð fyrir fund stofnfjáreigenda sem gert er ráð fyrir að haldinn verði við fyrsta hentugleika. Bent er á að samruni sparisjóðanna tveggja sé háður samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×