Viðskipti erlent

Bank of America segir 3.000 starfsmönnum upp

Annar stærsti banki Bandaríkjanna, Bank of America, hefur ákveðið að segja upp 3.000 af starfsmönnum sínum. Er þetta mesti niðurskurður á Wall Street hingað til í kjölfar hrunsins á fasteignamarkaðinum vestan hafs vegna svokallaðra undirmálslána.

Breska blaðið The Times fjallar um málið í dag og segir þar m.a. Kenneth Lewis aðalforstjóri Bank of America telji að gríðarlegt tap bankans vegna undirmálslánanna sé að mestu eigin sök. Bankinn hefur þurft að setja rúmlega 2 milljarða dollara eða 120 milljarða kr. í afskriftarsjóði sína til að mæta tapinu af fyrrgreindum lánum og öðrum áhættufjárfestingum.

Jefferson Harralson greinir hjá KBW í Atlanta segir að þessi niðurskurður á starfsmönnum bankans sé meiri en gert hafði verið ráð fyrir. "Lewis grípur strax til aðgerða til að auka arðsemina á næsta ári," segir Harralson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×