Viðskipti erlent

Norðmenn að ná milljón tonna markinu í eldisfiski

Helsti sérfræðingur Norðmanna í markaðsmálum fiskeldis, Lars Liabö hjá greiningarfyrirtækinu Kontali Analyse, telur að framleiðsla norskra fyrirtækja í Noregi á eldislaxi og -urriða geti náð milljón tonna markinu innan þriggja ára. Mat Liabö er að framleiðslan á árinu 2010 verði á bilinu 900 til 1100 þúsund tonn.

Fjallað er um málið á Interseafood þar sem segir að miklir óvissuþættir séu í fiskeldinu og í því sambandi má nefna sjúkdóma og framboð frá öðrum þjóðum. Liabö telur þó að norskir framleiðendur geti náð fyrrgreindu marki á tilsettum tíma og byggir hann það á samtölum við framleiðendur sem þekkja gerst til mála.

Liabö segir í samtali við Intrafish að margir framleiðendur séu komnir á fremsta hlunn með að brjótast undan hinni opinberu framleiðslustýringu sem felst í því að megninu af eldisfisknum er slátrað nokkrum sinnum á ári.

Markaðurinn vill jafnt framboð árið um kring og Liabö telur að með því að frysta meira af afurðunum sé hægt að komast hjá toppunum sem nú einkenna framboðið. Hann segir að markaðurinn eigi að ráða framleiðslunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×