Viðskipti erlent

Hækkun og lækkun vestanhafs

Frá hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum.
Frá hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum. Mynd/AFP

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum enduðu bæði fyrir ofan og neðan núllið eftir viðskiptadaginn vestanhafs. Fjármálaskýrendur segja skýringa að leita í mismunandi afkomutölum bandarískra stórfyrirtækja sem hafi verið að skila sér síðustu daga eftir óróleika á fjármálamarkaði. Hins vegar er óttast að samdráttur á húsnæðislánamarkaði geti verið dragbítur á hagkerfinu allt fram á næsta ár.

Þannig hefur samdráttur á bandarískum fasteignalánamarkaði sett skarð í afkomu flestra fjármálastofnana á meðan tæknigeirinn virðist hafa komið ágætlega undan óróanum.

En fleira spilar inn í, ekki síst greinagerð bandaríska seðlabankans sem birt var í dag. Þar kemur fram að líkur séu á að skellurinn á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum muni skila sér í minni hagvexti þar í landi allt fram á næsta ár. Í greinagerðinni segir ennfremur að vöxtur neyslu og fjárfestinga sé ójafn þar sem fyrirtæki hafi haldið neyslunni uppi á meðan dregið hafi úr vexti einkaneyslu. Einkaneysla er stór liður í hagvaxtartölum vestanhafs. Dragi úr henni má reikna með að það hafi áhrif á hagvöxt.

Fjármálaskýrendur telja, að vegna þessa megi reikna með nokkuð verri afkomu fyrirtækja á þriðja ársfjórðungi en reiknað hafði verið með áður en niðursveifla á mörkuðum reið yfir vestanhafs eftir miðjan júlí.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 0,15 prósent við lokun viðskiptadagsins. Nasdaq-vísitalan hækkaði um 1,04 prósent á sama tíma og S&P-vísitalan um 0,18 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×