Viðskipti erlent

Hlutabréf í Ericsson hríðfalla vegna slakrar afkomu

MYND/Pjetur

Gengi bréfa Ericsson, stærsta símaframleiðanda heims, féll um 26 prósent í morgun í kjölfar yfirlýsingar um að sala og hagnaður á þriðja ársfjórðungi væri undir væntingum.

Hlutabréf sænska risanns náðu í morgun þriggja ára lágmarki á markaði. Sala fyrirtækisins hefur hrapað um 9 prósent frá öðrum ársfjórðungi sem er mun verri niðurstaða en bæði stjórnendur fyrirtækisins sem og markaðurinn gerðu ráð fyrir.

Carl Henric Svanberg, forstjóri og stjórnarformaður Ericsson, segir ástæðu fyrir minni sölu einfaldlega vera aukna samkeppni á markaði. Hann segir þó fjórða ársfjórðung verða í samræmi við áætlanir og árið 2008 líti ágætlega út fyrir fyrirtækið.

Hagnaður Ericsson milli ára minnkaði úr 6,2 milljörðum sænskra króna sem jafngildir um 58 milljörðum íslenskra króna í 4 milljarða sænskra króna eða rúmar 37,5 milljarða íslenskra króna. Fréttirnar höfðu áhrif á aðra símaframleiðendur en gengi bréfa Nokia féll um 3,6 prósent í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×