Viðskipti erlent

Branson að kaupa Northern Rock

Milljarðamæringurinn Richard Branson hefur mikinn áhuga á að kaupa Northern Rock bankann í Bretlandi. Sem kunnugt er af fréttum hefur bankinn átti í verulegum fjárhagsvanda undanfarnar vikur. Talskona fyrir fjármálafyrirtæki Branson, Virgin Money, staðfestir þetta í samtali við þýska tímaritið Spiegel.

Í morgun greindi breska blaðið The Times að það hefði heimildir fyrir þvi að Branson væri í viðræðum við fjárfesta í Bandaríkjunum og Miðausturlöndum um sameiginlega kaup á Northern Rock. Samkvæmt The Times er hugmyndin sú að Branson yfirtaki hina daglegu stjórn bankans og geri hann að hluta af Virgin Money veldi sínu.

Gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 0,58 prósent í dag og stendur í 259,5 pensum á hlut. Gengið stóð við 700 pens á hlut áður en stjórnendur bankans greindu frá því að þeir þyrftu risastórt neyðarlán í síðasta mánuði en tók að falla hratt í kjölfarið og fór lægst í 132,1 pens 1. október síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×